LAUFBLAÐ
Stundum er sagt að laufblöðin séu litlar sykurverksmiðjur. Hlutverk blaðanna er einmitt að framleiða sykur úr koltvísýringi (CO2) úr andrúmsloftinu og vetni (H+) en það fæst úr vatni sem kemur upp ræturnar úr jarðveginum.
Plönturnar fá orkuna til sykur-myndunarinnar frá sólarljósinu og kallast framleiðslan ljóstillífun. Sykurinn er síðan fluttur úr blöðunum til þeirra hluta plöntunnar sem engin framleiðsla er eins og til róta og blóma.
Hvert laufblað skiptist í fót, stilk og blöðku. Fóturinn tengir blaðið við stöngul. Stilkurinn hagræðir blaðinu þannig að orka sólar nýtist sem best. Sum blöð hafa lítinn eða engan stilk.
Blöð eru til af mörgum stærðum og gerðum. Af helstu gerðum blaða má nefna háblöð, ófullkomin blöð efst á stöngli; lágblöð, lítil ófullkomin blöð neðst á stöngli; axlablöð, litla blöðkuflipa sem oft vaxa út við blaðfót; blómblöð, er mynda blóm á plöntu og að lokum venjuleg græn blöð sem eru algengust og nefnast laufblöð.