BLÓM
Blómið er yfirleitt litríkasti hluti plöntunnar og tengist það meginhlutverki þess sem er að mynda fræ. Í blóminu eru æxlunarfæri plöntunnar, fræflar og frævur. Frævlarnir eru karlkyns æxlunarfæri plöntunnar en frævurnar kvenkyns. Frævlarnir og frævurnar mynda fræ. En til þess að svo megi verða þurfa frjó af frævlunum að berast yfir á frævurnar. Sá flutningur nefnist frævun og gerist yfirleitt á tvennan hátt, annaðhvort með vindi eða skordýrum sem laðast að litskrúði blómsins.
Allir hlutar blómsins eru í raun ummynduð laufblöð. Sum hafa breyst mjög mikið en önnur lítið. Blöðin myndast í ákveðinni röð, hin neðstu fyrst. Þau nefnast bikarblöð eða bikar og líkjast einna helst venjulegum laufblöðum, því að þau eru oftast græn. Næst fyrir ofan, eða innan, sitja krónublöð eða króna sem oft og tíðum skarta hinum skærustu litum.
Séu krónublöð samvaxin er krónan heilkrýnd en lauskrýnd séu þau ósamvaxin. Samblaða krónur eru mjög breytilegar að lögun; þær geta verið kúlulaga, trektlaga, pípulaga, bjöllulaga, tungulaga eða óreglulegar.
Blóm eru ýmist regluleg, það er þegar blómblöðin í hverjum kransi standa út til allra hliða, eða óregluleg, þegar blómblöð í hverjum kransi (bikar- og krónublöð, fræflar og frævur) eru ólík að stærð og lögun. Óregluleg blóm verða aðeins klofin eftir einni línu en regluleg blóm er unnt að kljúfa eftir fleiri en einni línu, svo að helmingarnir verði eins.