Um 30 km norður af Dyngjujökli í Vatnajökli er megineldstöðin Dyngjufjöll sem rís hæst í rúmlega 1500 m hæð yfir sjávarmál, eða 600–700 m yfir hraun og sanda umhverfis. Í Dyngjufjöllum er eldstöðin Askja sem er, eins og nafnið bendir til, mikið hringlaga jarðfall, eða askja, um 50 ferkílómetrar að stærð. Í raun má segja að Askja sé samsett úr þremur misgömlum sigkötlum. Botn hennar er þakinn úfnum hraunum og vikri sem myndast hefur í mörgum gosum innan og utan svæðisins.
Í suðausturhluta öskjunnar er mikið jarðfall sem myndaðist í stórgosi í Öskju árið 1875 og í því er Öskjuvatn, dýpsta stöðuvatn landsins, um 224 m þar sem það er dýpst. Í gosinu ruddist gífurlegt magn af ljósum vikri upp úr eldstöðvunum. Gjóskufallið barst til austurs og lagði í eyði marga bæi á heiðum og í uppsveitum austanlands. Miklar hörmungar fylgdu í kjölfarið sem ollu flótta fólks meðal annars til Vesturheims. Undir Dyngjufjöllum eru víða þykkir flákar af þessum ljósleita vikri, til dæmis hjá Drekagili. Víti við Öskjuvatn er einn sprengigíganna sem mynduðust í gosinu 1875.
Næst gaus í Öskju á árunum 1921–1930, en þá urðu nokkur smágos við Öskjuvatn og mynduðust meðal annars litlar hraunspildur á bökkum vatnsins. Árið 1961 varð svo myndarlegt gos á stuttri sprungu í norðaustanverðri öskjunni. Þar myndaðist gjallgígaröðin Vikraborgir í mikilli kvikustrókavirkni, en úfið svart apalhraun, Vikrahraun, rann niður á sléttlendið austan Öskju. Torfær jeppaslóð liggur nú upp hraunið að gígaröðinni.
Árið 1907 varð sviplegt slys á Öskjuvatni er þýskir jarðfræðingar sem þar voru við rannsóknir drukknuðu þegar bátkæna sem þeir voru á sökk í djúpið. Minnisvarði um þá félaga stendur á bökkum vatnsins. Askja er friðlýst náttúruvætti enda óhætt að segja að stórbrotin náttúran og öræfakyrrðin láti engan mann ósnortinn sem þar drepur niður fæti.