Katla er megineldstöð í Mýrdalsjökli. Undir eldstöðinni er kvikuþró þar sem í safnast kvika á milli eldsumbrota. Yfir kvikuþrónni hefur myndast mikil askja, hulin jökli, sem er um 80 ferkílómetrar að stærð og um 500–600 metra djúp. Askjan hefur myndast þegar þak kvikuþróarinnar hrundi í kjölfar eldsumbrota. Umhverfis öskjuna eru fjallshryggir, en skriðjöklar eins og Sólheimajökull og Kötlujökull, eiga upptök sín í skörðum milli fjallanna. Katla er hluti mikils eldstöðvakerfis sem teygir sig norðaustur um Eldgjá í átt að Skaftárjökli.
Gos í Kötlu eru yfirleitt öflug þeytigos og þeim getur fylgt mikið gjóskufall og gífurleg jökulhlaup. Þeytigosin verða þegar jökulbráðin kælir kvikuna sem berst upp í gosinu. Við það tætist kvikan í sundur og þeytist langar leiðir. Gosmökkur Kötlu rís hátt upp í gufuhvolfið og sést víða að. Vindáttin ræður svo hvar askan fellur til jarðar, en svört öskulög úr Kötlugosum má víða greina í jarðvegi á Íslandi.
Mest hætta stafar þó af jökulhlaupum sem fylgja Kötlugosum. Gos innan öskjunnar verða undir þykkum jökli og öll orka gossins fer því í upphafi til að bræða ísinn. Bræðsluvatnið nær ekki að safnast fyrir og brýst fram í gríðarlegu hlaupi. Ösku- og jarðvegsblandað vatnið rífur með sér jakaflykki sem berast langt frá eldstöðinni. Kötluhlaup standa yfirleitt ekki lengi, en eru þeim mun öflugri. Vatnsmagnið jafnast á við margfalt rennsli stærstu fljóta heims. Flest falla hlaupin niður á Mýrdalssand en einnig geta þau fallið niður á Sólheima- og Skógasand eða niður á Markarfljótsaura.
Kötlugos verða að jafnaði tvö á öld. Síðasta stórgos varð þar árið 1918. Nú hafa menn búist við stóru gosi í Kötlu um árabil. Viðbúnaður vegna þess er mikill og er eldstöðin vöktuð sérstaklega til að hægt sé að bregðast fljótt við og loka þjóðveginum yfir Mýrdalssand og vara íbúa Víkur og nærliggjandi sveitabæja við.