Á eldvirku svæðunum eru víða áberandi eldfjöll, sem standa upp úr umhverfi sínu, sum mjög há. Þau eru kölluð megineldstöðvar eða eldstöðvakerfi. Eldstöðvar geta verið mismunandi í útliti og hegðun. Þau geta myndað gígaraðir á sprungum, misstóra sprengigíga, dyngjur eða há eldfjöll. Mismunandi fjöll myndast eftir því hvort gýs undir jökli eða utan hans svo nokkuð sé nefnt. Flokkun eldstöðva getur verið með ýmsu móti.
Tvenns konar megineldstöðvar eru algengastar. Annars vegar myndast hátt og bratt fjall eins og Eyjafjallajökull og hins vegar myndast flatvaxin bunga með stórar öskjur eins og í Dyngjufjöllum.
Um 30 eldstöðvakerfi eru á Íslandi. Meðal kunnustu megineldstöðva á Íslandi eru Eyjafjallajökull, Snæfellsjökull, Hekla, Katla, Kverkfjöll, Dyngjufjöll og Krafla. Þar gýs oftar en annars staðar og þess vegna eru þetta há fjöll eða miklar bungur á landinu. Talið er að megineldstöðvar geti verið virkar í milljón ár eða meira. Hvarvetna milli þessara megineldstöðva getur gosið. Þar eru gossprungur (gígaraðir eða móbergshryggir) og dyngjur eða stapar.