Árið 1973 kom óvænt upp eldgos á Heimaey, sem er stærst Vestmannaeyja og sú eina í byggð. Gosið hófst á nærri tveggja kílómetra langri gossprungu, rétt austan byggðarinnar, klukkan tuttugu mínútur fyrir tvö að nóttu. Sem betur fer hafði veður hamlað því að fiskiskipafloti Eyjamanna væri á sjó og tókst því að flytja alla íbúa Vestmannaeyjabæjar, rúmlega 5000 manns, til lands strax um nóttina. Þó segja megi að gosið hafi komið upp í útjaðri bæjarins fórst sem betur fer enginn þessa örlagaríku nótt.
Fljótlega varð gosvirknin tiltölulega staðbundin austan við efsta hluta bæjarins, ekki langt frá Helgafelli sem talið er að hafi gosið fyrir um 5500 árum. Þar fór fljótlega að hlaðast upp annað fell sem síðar fékk nafnið Eldfell. Talsvert hraun rann til norðurs út í innsiglinguna til Eyja, án þess þó að loka henni. Fyrir vikið urðu hafnaraðstæður í Vestmannaeyjum betri eftir gos en fyrir. Verra var að hraun og gosaska lagðist yfir hús í austanverðum bænum og eyðilagði í stórum stíl. Alls grófust tæplega 300 hús undir hrauni og ösku. Nú er verið að grafa sum þeirra upp á ný til að sýna þeim sem heimsækja Vestmannaeyjabæ, líkt og gert er í Pompei á Ítalíu.
Í gosinu í Eyjum var reynd sú nýlunda að kæla hraunið með sjó sem dælt var án afláts með öflugum dælum yfir hraunjaðarinn, til að hefta framrás hraunsins. Þetta bar góðan árangur að talið er, þótt á stundum hafi sumum sýnst baráttan töpuð. Stór hluti bæjarins bjargaðist úr þessum náttúruhamförum sem stóðu linnulaust til loka júní. Strax og gosinu lauk fór fólk að hyggja að því að flytja aftur til baka og byggja upp bæinn sinn. Mannlíf komst aftur í eðlilegt horf í Eyjum. Sá kostur fylgdi reyndar gosinu að árum saman gátu Vestmannaeyingar nýtt sér hraunhitann til upphitunar húsa og var því hitaveita lögð í hvert hús.