PrentaPRENTA

Hekla

Hekla er 1488 m hár eldhryggur, sem er nærri 5 km langur og er hluti af 40 km löngu eldstöðvakerfi, vestast í eystra gosbeltinu á Suðurlandi. Fjallið setur mikinn svip á umhverfið, sést víða að og gnæfir yfir undirlendi Suðurlands. Hekla er svokölluð megineldstöð. Í jarðskorpunni, undir rótum fjallsins, er mikil kvikuþró þar sem kvika safnast fyrir á milli gosa. Talið er að eldfjallið hafi byrjað að hlaðast upp fyrir nærri 7000 árum og telst það því ungt á jarðfræðilegan mælikvarða, af megineldstöð að vera.

Eldvirkni er mikil í Heklu. Á sögulegum tíma hefur gosið meira en tuttugu sinnum í Heklu sjálfri og litlu oftar í nágrenni fjallsins. Þessi mikla virkni kann að tengjast því að fjallið stendur þar sem jarðskjálftabelti Suðurlands mætir eystra gosbeltinu. Fyrsta Heklugos sem vitað er um eftir landnám, var árið 1104. Þá eyddist öll byggð í Þjórsárdal og á Hrunamannaafrétti af völdum gjóskufalls. Annað afdrifaríkt gos varð árið 1300. Þá rifnaði fjallið að endilöngu og gosdrunur heyrðust langt norður í land. Bæir féllu í jarðskjálftum og mannfall og harðindi fylgdu í kjölfarið. Gosið stóð yfir í heilt ár.

Árið 1947 gaus Hekla eftir alllangt hlé. Gosið var afar öflugt í byrjun og mældist gosmökkurinn 30 km hár strax í byrjun gossins. Gosið stóð yfir óslitið í rúmt ár. Alls komu upp 1 km³ gosefna og hraun huldu 40 km² lands. Frá 1970 hefur Hekla verið í essinu sínu, því alls hefur gosið fimm sinnum í og við fjallið, fyrst 1970, þá 1980 og aftur 1981, því næst 1991 og loks árið 2000. Öll hafa þessi gos verið lítil í samanburði við stórgosin sem fyrr eru nefnd. Jarðvísindamenn gátu varað við síðasta gosinu, því um kl 17:40 þann dag kom gosórói fram á jarðskjálftamælum. Boðum var komið til fjölmiðla og Ríkisútvarpið greindi frá því í upphafi fréttatíma kl 18 að gos mundi hefjast í Heklu innan skamms. Það gekk eftir því gosið hófst rúmum 15 mínútum síðar.

Hekla er eitt af þekktustu eldfjöllum heims og hefur borið hróður Íslands víða. Hún var fyrr á öldum talinn annar tveggja innganga helvítis. Strombolí á Ítalíu var hinn. Hjátrú var tengd fjallinu og sagðar af því margar furðusögur. Fyrstir til að ganga á Heklu svo vitað sé voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson þann 20. júní 1750. Nú ganga margir á Heklu og algengast er að fara upp fjallshrygginn að norðanverðu. Í björtu veðri er ótrúlega víðsýnt af Heklutindi.

Smelltu til að fá stærri mynd
Hæð: 1488 m
Tegund: Eldhryggur
Síðasta gos: 2000