Langflestir skjálftar á jörðinni verða á flekamörkum.
Myndin sýnir staðsetningu skjálfta og fylgja þeir mjög greinilega mörkum flekanna á jarðarkúlunni. Einhverjir skjálftar eiga þó upptök sín inni á miðjum fleka, en þeir eru mun fátíðari.
Stærstu skjálftarnir verða þar sem tveir flekar rekast á hvor annan.
Þegar tveir meginlandsflekar mætast krumpast flekarnir saman og mynda gífurlega háa fjallgarða. Þetta gerist vegna þess að flekarnir tveir eru svipaðir að gerð og sökkva ekki auðveldlega undir hvorn annan. Stórir jarðskjálftar verða á þessum svæðum vegna þess hve plöturnar eru þykkar. Sem dæmi má nefna Himalaya-fjallgarðinn. Þar klessir Indlandsflekinn á Evrasíuflekann sem þrýstist upp og myndar hæstu fjöll í heimi.
Þegar úthafsfleki mætir meginlandsfleka sekkur eðlisþungur úthafsflekinn undantekningalaust undir eðlisléttari meginlandsflekann. Úthafsflekinn bráðnar þegar hann hefur náð vissu dýpi í stinnhvolfinu og kvikan leitar upp á yfirborðið. Þess vegna standa svo mörg eldfjöll á svona flekamótum. Margir af stærstu jarðskjálftum sögunnar eiga upptök sín á mótum meginlands- og úthafsfleka, t.d. stærsti mældi skjálfti í heimi í Síle 1960. Hann var 9,5 að stærð.
Þegar tveir úthafsflekar mætast gengur annar flekinn undir hinn og sekkur ofan í stinnhvolfið. Á mörkum flekanna myndast svokallaðir djúpálar. Flekinn sem gengur ofan í stinnhvolfið bráðnar og eðlislétt kvikan leitar upp til yfirborðsins. Þessi eldvirkni nær að lokum upp fyrir hafsborðið og myndast þá eyjabogar. Dæmi um slíka eyjaboga eru Japan og Aljúta-eyjar í Kyrrahafi. Eins og á öðrum flekamótum geta orðið mjög stórir jarðskjálftar þar sem tveir úthafsflekar mætast. T.d. má nefna jarðskjálftann úti fyrir ströndum Japans í mars 2011 (stærð 9,0).
Á flekaskilum skiljast tveir flekar í sundur. Þunn úthafsskorpan opnast og kvika brýst upp á yfirborðið. Hér er fæðingarstaður skorpunnar og á flekaskilunum myndast svokallaðir úthafshryggir. Jarðskjálftar eru tíðir og þeir raða sér á flekaskilin. Þeir eru yfirleitt frekar litlir og grunnir (undir 10 km dýpi).
Á hjáreksbeltum er hreyfing flekanna samsíða hvor öðrum. Talsverð skjálftavirkni tilheyrir hjáreksbeltum og á hún sér oftast stað á sniðgengissprungum. San Andreas sprungan í Kaliforníu er dæmi um hjárekstbelti. Þar hafa orðið stórir skjálftar, t.d. í San Francisco árið 1906. Þá eyðilagðist stór hluti borgarinnar og fjölmargir létu lífið í miklum eldum sem brutust út í kjölfar skjálftans. Á Íslandi má einnig finna hjáreksbelti og sniðgengissprungur, en allir Suðurlandsskjálftar sem við höfum upplýsingar um eiga upptök sín á sniðgengissprungum.