Jarðskjálftar og eldvirkni

Jarðskjálftar eru nátengdir eldsumbrotum. Þegar kvikan brýtur sér leið á yfirborðið byggist upp spenna á sama hátt og við flekahreyfingar. Þegar spennan losnar verður jarðskjálfti. Þessir jarðskjálftar eru oftast mjög litlir.

Nokkrir jarðskjálftar fundust í Vestmannaeyjum áður en gos hófst á Heimaey, aðfararnótt 23. janúar 1973. Á Íslandi voru þá fáir jarðskjálftamælar og reyndist erfitt að staðsetja skjálftana. Annarsvegar var reiknað út að skjálftarnir ættu upptök sín í Veiðivötnum og hinsvegar í Vestmannaeyjum. Það þótti þó svo ósennilegt að skjálftarnir ættu sér stað í Vestmannaeyjum að þær voru útilokaðar. Það kom því öllum í opna skjöldu þegar eldgos hófst rétt utan við bæinn um miðja nótt.

Í dag er skjálftamælanetið á Íslandi mun þéttara sem gerir okkur kleift að staðsetja skjálfta með mun meiri nákvæmni. Þannig er hægt að vakta eldfjöll og jafnvel gefa út fyrirvara um yfirvofandi eldsumbrot. Þegar Hekla gaus árið 2000 spáðu jarðvísindamenn fyrir um gosið með klukkustundarfyrirvara.

Með nákvæmri staðsetningu er oft hægt að fylgja leið kvikunnar á yfirborðið. Til þess þarf þó nokkurn fjölda jarðskjálftamæla í námunda við umbrotin. Á myndinni hér til hliðar sést staðsetning og dýptarákvörðun skjálftanna í aðdraganda gossins á Fimmvörðuhálsi árið 2011. Elstu skjálftarnir eru fjólubláir, bláir og grænir. Smá saman færist virknin ofar og er sýnd með gulum og appelsínugulum lit. Veðurstofa Íslands notaði þessar upplýsingar til þess að vara við gosinu. 20. mars var Almannavörnum gert viðvart og undir miðnætti sama dag hófst eldgosið.

Jarðfræðivefurinn
© 2009, 2012, 2013
Námsgagnastofnun
Um vefinn
Jarðskjálftakort af Íslandi
Skoðaðu upptök jarðskjálfta
á Íslandi 1994-2012.
Flekamörk í öðru ljósi
Kexið útskýrir allt!