Þegar jarðskjálfti á sér stað leggja af stað frá upptökunum margar mismunandi jarðskjálftabylgjur. Þessar jarðskjálftabylgjur ferðast í gegnum alla jarðkringluna og gefa okkur upplýsingar um innri gerð jarðarinnar. Bylgjurnar eru tvenns konar: þrýstingsbylgjur sem kallaður eru P-bylgjur og skerbylgjur sem eru kallaðar S-bylgjur.
Hér sjáum við leið P- og S-bylgna í gegnum jörðina. Á myndinni sést hvernig bæði P- og S- bylgjurnar beygja eftir því sem þær ferðast dýpra í jörðinni. Það gerir það að verkum að þær koma aftur upp á yfirborðið fjarri þeim stað sem þær lögðu upp frá.
Við sjáum einnig að aðeins P-bylgjurnar ferðast í gegnum ytri kjarna jarðarinnar. Það er vegna þess að ytri kjarninn er bráðinn. P-bylgjurnar komast vandræðalaust í gegnum hann en S-bylgjurnar deyja út.
Þessi beygja bylgnanna og hvarf S-bylgnanna í bráðna hluta kjarnans verður til þess að á hluta af yfirborði jarðar verður til skuggi þar sem hvorki P- né S-bylgjur mælast. Þessi staðreynd gerir okkur kleift að áætla stærð kjarnans.
Þannig eru jarðskjálftabylgjur okkar besta tæki til þess að gera okkur grein fyrir innri gerð jarðar.
Nánar má lesa um innri gerð jarðar á öðrum hluta vefjarins
Þrýstingsbylgjur eru bylgjur þar sem efnið þjappast saman og dregst sundur þegar bylgjan fer hjá. Hljóðbylgjur eru þessarar gerðar.
Skerbylgjur eru bylgjur þar sem efnið svignar þvert á stefnu bylgjunnar án nokkurrar rúmmálsbreytingar. Þær geta ekki ferðast í gegnum vökva vegna þess að vökvinn getur ekki svignað. Ímyndaðu þér að þú reyndir að klippa vökva með skærum. Skærin reyna að skera eða sveigja vökvann en það er ekki hægt. Af sömu ástæðu stöðvast S-bylgjur þegar þær koma að efni sem er vökvi.