VALLLENDI - MEIRA

Til eru ýmsar gerðir af valllendi.

Graslendi

Graslendi er ein gerð af valllendi, þar sem grastegundir eru nær einvörðungu drottnandi í svip landsins. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft. Ræktuð tún eru graslendi, en það er líka víða í brekkum og á þurrum harðbalavöllum. Hinar ýmsu gerðir af graslendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum.

Blómlendi

Blómlendi (jurtastóð) er önnur gerð valllendis og þá eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi til að sjá en grösin. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum, á klettasyllum eða í lautadrögum.

Burknastóð

Burknastóð er náskylt blómlendi, en það mynda burknar, sem eru gróplöntur en ekki blómplöntur. Burknastóð er bundið við skjólsæla staði eins og hraunsprungur og gjár eða lautir. Til stóðburkna teljast stóriburkni, dílaburkni, fjöllaufungur og þúsundblaðarós, sem einnig er burkni, þrátt fyrir nafnið.

Traðagróður og varpagróður

Traðagróður og varpagróður er valllendi, sem myndast annars vegar í nánd við þéttbýli og hins vegar í kringum sveitabæi. Hávaxnar og áberandi tegundir, eins og heimulunjóli, þistill, húsapuntur, hóffífill og baldursbrá, blasa víða við á slíkum stöðum.