TIL FJALLA - MEIRA

Flóar eru útbreiddasta votlendið í miðhálendi og ber mest á brokflóum. Í hálendismýrum eru stinnastör og hengistör oft drottnandi tegundir. Sums staðar í votlendisflákum á hálendi eru bunguvaxnar stórar þúfur umluktar flóum og tjörnum. Þúfur þessar kallast rústir og eru í raun bunguvaxnir mýrarhólar með sífrera eða klaka, sem nær ekki að þiðna um sumarið. Þessar ??ústir geta verið allt að tveir metrar á hæð, að einum tug metra á breidd og á annan tug metra á lengd. Gróður á rústakollinum er oft í ætt við mólendi eða mosaþembu.

Alls hafa fundist um 80 tegundir plantna fyrir ofan 1000 metra hæð yfir sjó. Þar er engan samfelldan gróður að finna og vaxa plönturnar þar jafnan í klettaglufum eða í skjóli á milli stórra steina. Flestar þeirra tegunda sem hæst fara vaxa líka á láglendi, eins og ólafssúra, músareyra og melablóm, en aðrar eru að mestu bundnar við háa fjallatinda og finnast tæplega fyrir neðan 700 metra hæð yfir sjó. Af þeim má nefna jöklaklukku, fjallabláklukku, fjallabrúðu og fjallavorblóm.