BERSVÆÐISGRÓÐUR - MEIRA

Í grófum dráttum má skipta þessu búsvæði í eftirfarandi flokka:

Melar

Melar eru flestir tiltölulega sléttir á yfirborði og gerðir úr möl eða smásteinum og fínni bergmylsnu Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jör??, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna. Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á suð-vestanverðu landinu.

Sandar

Sandar eru mjög lausir í sér og því þarf lítinn vind til þess að hreyfa við yfirborðinu. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó au??veldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum. Það eru einkum nokkrar grastegundir, sem ná að dafna í skjóli melgresisins, en einnig holurt (fálkapungur) og geldinghnappur. Á söndum nálægt sjó vex fjöruarfi oft í miklum breiðum.

Skriður, áreyrar, jökulaurar og klettar

Skriður, áreyrar, jökulaurar og klettar eru oft lítt eða ekkert gróin. Allt fer það þó eftir aðstæðum hverju sinni, aðallega skjóli og hversu mikla vætu plönturnar ná í. Engin ein gerð gróðurlendis er bundin við hvern stað. Í skriðum geta til dæmis verið nær allar gerðir gróðurlenda. Oft vaxa blómfagrar plöntur þó á þessum stöðum. Af kunnum tegundum má nefna, að eyrarós drottnar víða á áreyrum og jökulaurum; dúnurtir og steinbrjótar í klettum; og blóðberg í skriðum.