VOTLENDI - MEIRA

Hér verða aðeins nefndar helstu gerðir votlendis.

Flói

Flói er nær hallalaus og vatnið flýtur yfir grassverðinum. Rennsli á vatni er lítið. Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og hálendi. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, sem sker sig úr sem gulgrænar rákir, og er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár gerðir af flóum – brokflóa, ljósustararflóa og gulstararflóa – er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.

Mýri

Mýri hallar oftast nær og stendur sjaldnast yfir grassverðinum. Vatnið er jafnan á hægri hreyfingu Að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Allmargar blómfagrar tegundir vaxa oft í mýrum, eins og fjalldalafífill, mjaðjurt, brennisóley og hrafnaklukka. Þá eru mýrar oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.

Flæðimýri

Flæðimýri myndast aðallega við árósa, ??ar sem vatn flæðir yfir með reglubundnum hætti, einkum að vori og í miklum rigningum. Einkennistegund flæðimýra er gulstör. Þær voru slegnar fyrr á árum, enda er vöxtur þar mjög mikill.

Dý geta myndast þar, sem vatn streymir án afláts upp úr jörðu. Þau ná sjaldnast yfir stór samfelld svæði. Einkennistegund dýja er mosi, sem gefur þeim sérstakan lit. Algengustu tegundirnar eru dýjahnappur, gulgrænn á lit, og lindaskart, sem er blágrænt eða ljósgrænt, jafnvel hvítgrænt til að sjá. Blöð lindaskarts hrinda frá sér vatni og því má oft sjá stóra vatnsdropa skoppa ofan á mosabreiðunum. Af blómplöntum er helst að nefna lindadúnurt, stjörnusteinbrjót, gullbrá og hófsóley.