STRÖND - MEIRA

Ströndin er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því, að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins. Hér verður þörunga að engu getið, en þeir eru jafnan helstu lífverur með ströndum fram. Reyndar má geta þess, að blómplantan marhálmur vex á kafi í sjó allvíða á grunnsævi og í lygnum vogum og víkum. Hann mun hafa verið algengur en um 1930 eyddist hann að líkindum vegna sveppasýkingar. Marhálmur vex í grunnum sjó og litar hann grænan. Í grófum dráttum má skipta strönd í eftirfarandi flokka:

FJARAN

Fjaran er neðst á ströndinni. Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og grastegundin sjávarfitjungur og hrímblaðka. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra. Eftir því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.

SJÁVARKLAPPIR

Sjávarklappir ganga víða í sjó fram. Allnokkrar plöntutegundir vaxa þar, eins og sjávarfitjungur, skarfakál, geldingahnappur og kattartunga. Í fuglabjörgum er gróðurinn enn ríkulegri; þar vaxa hvannir, ætihvönn, geithvönn og sæhvönn, burnirót og baldursbrá. Á sjávarklettum er eftirtektarverð hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og myndar svart belti neðst á klöppunum.

SJÁVARDFITJAR

Sjávarfitjar verða víða til þar sem sjór flæðir yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.