MÓLENDI - MEIRA

Helstu gerðir mólendis eru þessar:

Þursaskeggsmór

Þursaskeggsmór dregur nafn sitt af einni algengustu plöntu landsins, þursaskeggi. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana, en samfelldar breiður þursaskeggs varpa móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land. Oft vex móasef innan um þursaskeggið og er ekki mjög áberandi. Litlar, blómfagrar plöntur, eins og hvítmaðra, lambagras og blóðberg, leynast þó alloft þar inni á milli.

Lyngmór

Lyngmór er samheiti yfir þýft mólendi, þar sem smárunnar eru ríkjandi. Mórinn fær síðan nafn af þeirri lyngtegund, sem ræður ríkjum á hverjum stað. Algengusti lyngmóarnir eru krækilyngsmór og bláberjalyngsmór, sem eru um nær land allt, nema einna síst í lágsveitum á Suðurlandi. Þetta eru aðal berjalönd landsmanna. Af öðrum gerðum mólendis má svo nefna, fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, sortulyngsmó og beitilyngsmó, sem eru talsvert útbreiddir, auk sauðamergsmós, sem verður ekki áberandi fyrr en komið er nokkuð inn til landsins. Rétt er þó að hafa í huga, að víða vaxa allar helstu einkennistegundirnar saman, svo að skýr mörk verða ekki á milli þessara einstöku gerða.

Mosamór

Mosamór nefnist mórinn, þar sem svo mikill mosi hefur hlaupið í svörðinn, að blómplöntur láta undan síga. Það eru einkum þrjár tegundir mosa, sem verða drottnandi, tildurmosi, grámosi (eða melagambri) og gamburmosi (eða hraungambri). Oftast er strjálingur af blómplöntum í mosanum, eins og stinnastör, krækilyngi, músareyra og hvítmöðru. Þar sem úrkoma er ríkuleg myndar gamburmosi þykka bungulaga fláka, aðallega í hraunum. Þar ná aðrar tegundir ekki að skjóta rótum. Þessir flákar nefnast mosaþemba, en hún er sjaldnast talin til mólendis, heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.