Markmið
Að hjálpa nemendum að sjá tengslin milli réttinda og skyldna.
Efni og gögn
Blöð í tveimur litum og blýantar.
Aðferð
1. skref
Nemendur mynda fjögurra manna hópa. Hver hópur klippir niður nokkra bréfmiða í tveimur mismunandi litum. Nemendur skrifa niður öll þau réttindi sem þeir telja sig hafa, ein réttindi á hvern miða. Allir miðarnir sem réttindin eru skrifuð á eiga að vera í sama lit.
Ef nemendurnir eiga í erfiðleikum með að ákveða hver réttindi þeirra eru getur kennarinn stungið upp á réttindum þeim sem nefnd eru í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
2. skref
Kennarinn útskýrir nú að hverjum rétti fylgi ákveðin skylda:
- Fullorðið fólk sem hefur rétt til þess að kjósa hefur þá skyldu að nýta atkvæði sitt til þess að tjá skoðun sína.
- Fólk sem hefur ökuréttindi ber einnig þá skyldu að aka varlega og fara eftir umferðarreglum.
- Nemendur sem telja sig eiga rétt á því að á þá sé hlustað, hafa jafnframt þá skyldu að hlusta á fullorðið fólk og aðra nemendur.
Þegar nemendur hafa náð tökum á hugmyndinni um ábyrgðina sem tengist réttindunum skrifa þeir niður eina skyldu sem samsvarar hverjum rétti sem þeir hugsuðu upp í 1. skrefi. Allir miðarnir sem skyldurnar eru skrifaðar á eiga að vera í sama lit.
3. skref
Hver fjögurra manna hópur blandar nú saman réttinda- og skyldumiðunum og skiptir því næst við annan hóp á öllum miðunum. Nemendur í hverjum hóp vinna síðan saman við að finna þá skyldu sem samsvarar hverjum rétti. Þegar þeir hafa lokið við að raða saman skyldunum og réttindunum biðja þeir hinn hópinn að fara yfir verkið og athuga hvort rétt hafi verið farið að.
4. skref
Bekkurinn ræðir um verkefnið:
- Skrifaði einhver hópur niður réttindi sem ykkur hafði ekki dottið í hug?
- Var auðvelt eða erfitt að finna út hvaða ábyrgð og skyldur fylgja mismunandi réttindum?
- Hvort haldið þið að flestar þær reglur sem gilda í skólanum, heima hjá ykkur eða í samfélaginu séu til þess að vernda réttindi nemenda eða til að tryggja það að nemendur geri skyldur sínar (eða er jafnvægi milli þessa tveggja atriða)?
Tilbrigði
Nemendur skrifa niður þau réttindi sem þeim finnst þeir ættu að hafa og skrifa síðan niður þær skyldur sem myndu fylgja þeim réttindum. Eru einhver réttindi sem þeim finnst þeir ættu að hafa en er neitað um? Af hverju er það?
Verkefninu fylgt eftir
1. Nemendur ræða réttindin sem þeir fullorðnu hafa í samfélaginu og hvaða skyldur fylgja þeim réttindum.
2. Bekkurinn rannsakar Barnasáttmálann og finnur þær skyldur sem tengjast hverri grein Sáttmálans.
Tengsl við námskrá
Verkefni þetta útheimtir hæfni í greiningu, tengingu og að sjá fyrir afleiðingar. Hægt væri að nota verkefnið í samfélagsfræði eða lífsleikni.