Markmið

Að þróa innsýn og skilning sem gerir nemendum kleift að sýna fötluðum samhygð.

Efni og gögn

Blöð og blýantar, klútur til að binda fyrir augu og hlutverkamiðar.

Aðferð

Þessu verkefni er skipt niður í fjóra hluta:
I. Kynning
II. Blindragangan
III. Táknmál
IV. Eru fatlaðir öðruvísi?

Þetta er alvarlegt verkefni en engu að síður geta komið upp gamansamar aðstæður. Leyfið því að gerast en verið tilbúin til þess að skerast í leikinn eða koma með athugasemdir ef nemendur gera eitthvað sem ekki er öruggt eða koma fram með niðrandi athugasemdir um fólk sem á við fötlun að stríða.

I. hluti – Kynning

1. Kennari útskýrir að í þessu verkefni mun verða litið á hvernig fötlun getur haft áhrif á líf fólks og hvernig aðrir líta á mann.

2. Nemendur eru beðnir að taka fram A-4 blað og skrifa niður stutta stundatöflu venjulegs dags í miðri viku.

3. Nemendunum er sagt að þeir muni nú reyna að upplifa hvernig það er að vera á einhvern hátt fatlaður.

II. hluti – Blindragangan

1. Nemendur raða sér upp, tveir og tveir saman. Kennarinn útbýtir klútum sem binda má fyrir augun. Annar nemandinn í hverju teymi ætti að leika þann blinda og hinn verður leiðbeinandi hans. Leiðbeinandinn ber ábyrgð á að tryggja öryggi hins „blinda“ meðan á leiknum stendur. Hann má þó einungis svara einföldum spurningum sem tengjast öryggi hins „blinda“ og þá aðeins með því að segja já eða nei.

2. Kennari byrjar á því að biðja „blindu“ þátttakendurna að standa upp. Þeir eru fengnir til að mynda einfalda röð upp við töfluna – án aðstoðar leiðbeinendanna.

3. Kennari biður nú leiðbeinendurna að fara með félögum sínum í fimm mínútna gönguferð um skólann, helst upp og niður stiga og út á lóð ef hægt er.

4.Þegar nemendurnir koma aftur inn í skólastofuna ættu leiðbeinendurnir að leiða þá „blindu“ í sæti sín.

5. Nemendum eru gefnar nokkrar mínútur til þess að komast út úr hlutverkum sínum áður en byrjað er á III. hluta.

III. hluti – Táknmál

1. Nemendum er tilkynnt að þeir muni nú skipta um hlutverk innan hópanna. Leiðbeinendurnir munu nú taka að sér hlutverk hinna fötluðu (í þetta sinn eru þeir mállausir) og félagar þeirra eru hinir hjálpsömu leiðbeinendur.

2. Kennari dreifir einum af miðunum sem á stendur Aðstæður og finna má á blaðsíðu XX til „mállausu“ nemendanna. Þeir mega ekki sýna félögum sínum miðana. Leiðbeinendurnir hafa hver fyrir sig blað og blýant fyrir þennan hluta.

3. Kennari útskýrir að „mállausu“ nemendurnir þurfa að gefa leiðbeinendunum til kynna hvaða vandamál þeir eiga við að glíma. Ekki er leyfilegt að skrifa, tala eða teikna. Leiðbeinendurnir þurfa þó að skrifa niður það sem þeir telja að hinn „mállausi“ félagi þeirra sé að reyna að koma á framfæri.

4. Þegar „mállausu“ nemendurnir hafa reynt sitt ýtrasta til þess að miðla upplýsingunum sem þeir vildu koma á framfæri, ættu þeir að sýna leiðbeinanda sínum miðann. Hópunum eru gefnar nokkrar mínútur til þess að tala saman um verkefnið, vandamál, pirring og fleira.

IV. hluti – Eru fatlaðir öðruvísi?

1. Nemendur eru beðnir að líta á stundatöflurnar sínar aftur og síðan að ímynda sér að þeir hefðu misst sjónina, heyrnina eða málið.

2. Hvernig myndi stundatafla dagsins breytast? Hvaða athafnir og áhugamál yrði erfitt eða ómögulegt fyrir þá að stunda? Hvað myndi þeim finnast um að þurfa að hætta að gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt?

3. Að lokum má spyrja nemendur hvort að þeir haldi að það að vera fatlaður myndi breyta þeim í aðra manneskju? Myndi fólk líta á þá á annan hátt? Hvernig myndi þeim líða yfir því?

UmræðurAðstæður

Dæmi um aðstæður sem upp geta komið.
;
Kafli 1 / Verkefni 7
Tengsl okkar við umheiminn
PrentaPRENTA