Markmið
Að leita leiða til þess að takast á við einelti og að nemendur velti fyrir sér rótum eineltis og afleiðingum þess.
Efni og gögn
Eitt eintak af spurningalistanum um einelti fyrir hvern nemanda, blöð og blýantar.
Aðferð
1. skref
Nemendur eru fengnir til að skrifa allt sem þeim dettur í hug um einelti niður á blað, á fimm mínútum.
Á heimasíðu
Regnbogabarna kemur fram þessi skilgreining á einelti:
Dan Olweus skilgreinir einelti þannig að það sé einstaklingur sem lendir reglulega og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti af hendi eins eða fleiri.
Roland telur einelti vera langa og kerfisbundna notkun ofbeldis, andlegs eða líkamlegs, gagnvart einstaklingi sem ekki getur varið sig í aðstæðunum.
Bjorkquist og fleiri segja einelti vera ákveðna tegund ýgi/árásargirni sem sé í raun félagsleg.
Pikas heldur því fram að nauðsynlegt viðmið til að meta einelti sé að það sé neikvæð hegðun frá tveimur eða fleiri einstaklingum gagnvart einum einstaklingi eða hópi.
Besag segir að í Bretlandi sé það talið einelti þegar einn einstaklingur ræðst á einhvern hátt gegn einum einstaklingi, hópi eða hópur ræðst gegn hópi eða hópur gegn einstaklingi.
2. skref
Bekkurinn er spurður eftirfarandi spurninga og uppástungur þeirra skráðar á töfluna eða á glæru:
- Hvað er einelti?
- Hver verður fyrir einelti?
- Af hverju verða sumir fyrir einelti?
- Verður mismunandi fólk fyrir einelti í mismunandi skólum? Af hverju?
- Verður fólk bara fyrir einelti í skólum?
- Hvaða gerð af persónu leggur fólk í einelti?
3. skref
Nemendunum er gefið eintak af spurningalistanum (sjá neðst) og þeir fengnir til að fylla hann út án þess að skrifa nafnið sitt við hann.
4. skref
Tveir nemendur eru fengnir til að bjóða sig fram til þess að safna saman spurningalistanum og fara yfir svörin.
5. skref
Meðan þeir fara yfir listana spyr kennarinn aðra nemendur í bekknum um hvernig þeir haldi að útkoman verði. Kennari biður einnig um ábendingar um hvernig væri hægt að bæta spurningalistann.
6. skref
Sjálfboðaliðarnir tveir eru fengnir til að kynna niðurstöðurnar fyrir bekknum.
7. skref
Bekkurinn ræðir nú um einelti og niðurstöður könnunarinnar. Velta má þessum spurningum fyrir sér:
- Hvað getið þið ályktað um einelti í bekknum eftir að hafa heyrt um niðurstöður spurningarlistans?
- Kom eitthvað ykkur á óvart?
- Hvernig haldið þið að fólki líði sem verður fyrir einelti?
- Er það þeim sjálfum að kenna?
- Eru þeir sem leggja fólk í einelti að reyna að sanna eitthvað fyrir sér og öðrum?
- Er einelti tegund ofbeldis?
- Er einelti tegund valda?
- Er einelti óumflýjanlegt?
- Ef vinur þinn verður fyrir einelti ættir þú þá að láta einhvern fullorðinn ábyrgðaraðila vita, jafnvel þó að vinur þinn hafi sagt þér frá því í trúnaði?
- Hverjir eru algengustu fordómarnir gagnvart fólki sem verður fyrir einelti?
- Hver er ábyrgur fyrir því að taka á eineltisvandamálinu?
- Hvað finnst ykkur að þurfi að breytast innan bekkjarins og skólans í sambandi við einelti?
Verkefninu fylgt eftir
1. Nemendur eru hvattir til þess að finna samtök sem vinna að því að taka á einelti á Íslandi og leggja þeim samtökum lið.
2. Nemendur eru hvattir til að leita að frekari upplýsingum um einelti, t.d. hjá Regnbogabörnum.
3. Nemendur eru hvattir til þess að halda málfundi og ræða saman um einelti í bekknum.
4. Í einstaka skólum erlendis hjálpa eldri krakkar þeim yngri ef þeir verða fyrir einelti. Sumir skólar hafa sett upp nemendarekin jafningjaráðgjafarverkefni til þess að hjálpa krökkum sem eru lagðir í einelti og þeim sem leggja aðra í einelti. Ef áhugi er fyrir því getur kennari gefið nemendum frekari upplýsingar um jafningjaráðgjöf.
5. Nemendum boðið að komast að því hvernig staða eineltis er í skólanum þeirra með því að nota nafnlausa spurningalistann úr verkefninu og leggja hann fyrir aðra nemendur í skólanum. Þegar þeir hafa fengið svörin til baka gætu þeir skrifað skýrslu um einelti í skólanum fyrir aðra nemendur og skólayfirvöld.
Ítarefni
Í bókinni Saman í sátt – leiðir til að fást við einelti og samskiptavanda í skólum er einelti skilgreint og komið er fram með ábendingar um ýmis úrræði, forvarnir og viðbrögð við einelti. Höfundur bókarinnar er Erling Roland, hún er þýdd af Elínu Guðmundsdóttur og Guðmundi Inga Leifssyni og var gefin út af Námsgagnastofnun árið 2001.
Spurningalisti
Einelti: Dæmi um spurningalista.