Markmið

Að kynna nokkrar frumstaðreyndir um þróunarlönd og vinna þannig á móti þeim staðalímyndum sem ríkja um þessi lönd og íbúa þeirra.

Efni og gögn

Tvö stór spjöld sem á stendur „Satt“ eða „Ósatt“, staðsett í sitt í hvoru horni stofunnar.

Aðferð

Nemendur standa í miðju skólastofunnar. Kennarinn les röð fullyrðinga um þróunarlönd (sjá dæmi í Ramma 1.), eina fullyrðingu í einu. Um leið og hver fullyrðing er lesin staðsetja nemendur sig við spjaldið sem segir til um hvort þau telji að fullyrðingin sé sönn eða ósönn. Þeir nemendur sem eru óvissir um sannleiksgildi fullyrðinganna geta haldið stöðu sinni í miðju stofunnar.

Rammi 1.

Dæmi um fullyrðingar fyrir „Út í horn“:

Flest börn í Afríku svelta.

Ósatt. Minna en einn þriðji (31%) barna í Afríku sunnan Sahara eru vannærð. (Hlutfall vannærðra barna nær frá hámarki 49% í Níger til lágmarks 12% í Simbabve).

Flest fólk á Indlandi hefur ekki aðgang að hreinu vatni.

Ósatt. 86% fólks á Indlandi hefur aðgang að hreinu vatni.

Í Suður-Ameríku kunna flestir fullorðnir einstaklingar að lesa og skrifa.

Satt. Í löndum Suður-Ameríku kunna milli 80% og 96% fullorðinna að lesa og skrifa.

Flest börn sem byrja grunnskólanám í Kína ljúka náminu.

Satt. 85% barna á skólaaldri í Kína ljúka grunnskólanámi.

Flest börn í Austur-Asíu eru ekki bólusett gegn mislingum.

Ósatt. 89% barna í Austur Asíu eru bólusett. (Hlutfall bólusettra barna nær frá hámarki 99% barna í Kóreu til lágmarks 20% barna í Laos.)

Tilbrigði

Sem efni í fullyrðingarnar er hægt að nota tölfræði frá mismunandi löndum og heimshlutum, margs konar almennar staðalímyndir eða staðreyndir um lönd sem verið er að læra um í landafræði.

Verkefninu fylgt eftir

Nemendur reyna að finna úreltar eða brenglaðar ímyndir af þróunarlöndunum eða íbúum þeirra í bókasafnsbókum, sjónvarpsþáttum, teiknimyndum eða blöðum.

Tengsl við námskrá

Verkefni þetta inniheldur matshæfni og ákvarðanatökur. Verkefnið gæti verið unnið í sögu- eða landafræðitíma og þá notað sem kynning að námsefni um þróunarlönd.

;
Kafli 4 / Verkefni 1
Sjálfsmynd og staðalímyndir
PrentaPRENTA