Markmið

Að auka skilning nemenda á mismunandi umfjöllun fjölmiðla um vestræn lönd og þróunarlönd.

Efni og gögn

Safn nýlegra dagblaða og tímarita, stórt pappaspjald sem á er ritað heiti á heimshlutunum í 1. skrefi, lím, tússpennar og A-4 blað.

Aðferð

1. skref

Bekknum er skipt upp í þriggja manna hópa. Hverjum hóp er falinn einn af eftirtöldum heimshlutum:

Afríka
Mið-Austurlönd
Vestur-Evrópa
Mið- og Austur-Evrópa
Fyrrum Sovétríki
Suður- og Suðaustur-Asía
Austur-Asía, Ástralía og eyjar í Suður-Kyrrahafi
Norður-Ameríka
Mið-Ameríka, Suður-Ameríka og eyjar í Karabíska hafinu

Hóparnir fletta í gegnum nýleg tímarit og dagblöð og safna saman greinum sem fjalla um lönd í þeim heimshlutum sem þeim voru faldir. (Nemendur gætu viljað útiloka greinar um sitt eigið land eða takmarka þær við 5-10 greinar).

2. skref

Nemendur gefa hverri grein númer og líma þær því næst á stórt pappaspjald. Þeir skrifa svo á A-4 blað númer greinanna og stutta setningu við hvert númer sem lýsir efninu.

3. skref

Greinarnar og samantektirnar eru hengdar upp á veggi skólastofunnar. Nemendurnir geta þannig gengið á milli og litið á plaköt og samantektir hinna hópanna.

4. skref

Bekkurinn ræðir næst um hvað var ráðandi þema eða efni í greinum frá hverjum heimshluta.

5. skref

Bekkurinn tekur til umræðu eftirfarandi spurningar:

Dæmi:

Afríka
Það voru sjö greinar.
Það er skýr og afdráttarlaus hlutdrægni í greinunum.
Þær eru mest um ofbeldi og glæpi. Greinarnar um núverandi stjórnmálaástand eru að mestu um herskáa hópa og skotárásir.
Það er ein grein um flugslys.
Greinar um hagkerfið eru sjaldgæfar.
Hvers konar fréttir fáum við af þróunarlöndum?

Tilbrigði

1. Sama verkefnið gæti verið unnið með því að nota fréttir úr útvarpi eða sjónvarpi.

2. Fréttaflutningur frá þróunarlöndunum sem einblínir á öfgakennda fátækt, hungursneyð, náttúruhamfarir, borgarastríð o.fl. gefur alls ekki rétta mynd af lífinu í þessum löndum. Slíkur fréttaflutningur getur skapað staðalímyndir vegna þess að lesendur hafa sjaldnast þekkingu frá fyrstu hendi af dæmigerðum atburðum í þessum löndum sem þeir geta notað sem jafnvægi á móti æsilegum fréttaflutningi.

Til að sýna nemendum fram á þetta sjónarmið, er ráð að fá þá til þess að skrifa grein í fréttastíl um dæmigerðan dag í sínu lífi. Ætli slík frétt yrði birt? Af hverju og af hverju ekki?

Að þessu loknu er hægt að fá nemendur til að safna blaðagreinum um atburði eins og flóð, glæpi, átök, eiturlyfjavanda eða alvarleg slys í þeirra eigin landi. Hvers konar ímynd af landsmönnum myndi slík grein sýna fólki í öðrum heimshlutum, sem hefur ekki hugmynd um hvernig daglegt líf fer fram á Íslandi?

Verkefninu fylgt eftir

1. Bekkurinn heimsækir ferðaskrifstofu eða lítur á heimasíður ferðaskrifstofa og safnar saman upplýsingum og ferðabæklingum frá þróunarlöndunum. Hægt er að bera þessa bæklinga saman við dagblaðagreinarnar. Hvernig er munurinn milli þeirra? Hvernig er tilgangur höfundar ferðabæklingsins og fréttamannsins ólíkur? Hvernig eru lesendurnir ólíkir? Af hverju er það svo að hvorug þessa heimilda gefur rétta mynd af landinu?

2. Bekkurinn hefur samband við samtök sem vinna í þróunarlöndunum (eins og UNICEF, Rauða krossinn o.fl.) til að biðja um efni um árangursrík verkefni í löndunum. Þessar upplýsingar má setja á móti efnistökunum sem mátti finna í blaðagreinunum.

Tengsl við námskrá

Verkefni þetta útheimtir færni í lesskilningi, gagnrýninni hugsun, greiningarhæfni og athygli. Æfinguna má nota í fjölmiðlafræðikennslu, sögu eða landafræði ef átt er við sérstakan heimshluta eða land, eða í íslenskukennslu.

;
Kafli 4 / Verkefni 3
Sjálfsmynd og staðalímyndir
PrentaPRENTA