Markmið

Að auka skilning nemenda á ágreiningi, sérstaklega í þeirra eigin samfélagi. Einnig eru nemendur hvattir til þess að meta raunhæfa möguleika á því að grípa til aðgerða til þess að bæta ástandið.

Efni og gögn

Safn innlendra dagblaða, eintök af blaðinu Nálægur ágreiningur (sjá neðar) fyrir hverja tvo nemendur.

Aðferð

1. skref

Nemendur fá eina til tvær vikur til að safna innlendum dagblaðagreinum sem lýsa einhvers konar ágreiningi. Greinarnar gætu fjallað um glæpi, skemmdarverk, umræður milli stjórnmálaflokka, umræður um mögulegar virkjunar- eða byggingarframkvæmdir, átök milli fólks af ólíkum uppruna, mótmælagöngur, umhverfismál og fleira.

2. skref

Þegar greinunum hefur verið safnað saman velja nemendur, tveir og tveir saman, eina grein og reyna að finna lausn á ágreiningnum sem þar er kynntur. Nemendurnir svara spurningum á blaðinu Nálægur ágreiningur. (Verkefnið gæti útheimt það að skrifa þurfi til annars eða beggja aðilanna sem áttu í ágreiningnum til að fá meiri upplýsingar.)

3. skref

Þegar allir hafa fyllt út vinnublaðið eru niðurstöðurnar kynntar fyrir bekknum. Við hverja kynningu ætti að ræða aðrar mögulegar lausnir á ágreiningnum.

4. skref

Bekkurinn kýs síðan um hvort mögulegt sé að þau, sem ungt fólk, geti fundið leið til þess að vinna á uppbyggjandi hátt í ágreiningunum. Hægt væri að búa til tvo lista og skrifa þá á töfluna: Ágreiningsmál sem við getum haft áhrif á og Ágreiningsmálin sem við getum ekki haft áhrif á. Hvað eiga málin á hvorum lista sameiginlegt?

5. skref

Að lokum ákveður bekkurinn hvaða eitt mál þau geta tekið fyrir og haft áhrif á, á raunsæjan hátt. Kennarinn aðstoðar síðan bekkinn við að útbúa áætlun um hvernig vinna skuli með ágreininginn og hvort nemendurnir ættu að einbeita sér að rótum eða afleiðingum hans.

Verkefni sem taka á rótum ágreiningsmála gætu falið í sér bréfaskriftir til stjórnvalda, söfnun undirskriftalista, að nemendur haldi kynningar og fleira í þeim dúr.

Verkefni sem taka á afleiðingum ágreiningsmála gætu falið í sér að tína rusl, hreinsa veggjakrot, halda fjáröflun fyrir fólk í neyð, myndun ,,félagakerfis" sem fengi eldri nemendur til að ganga heim með yngri nemendum eftir skóla og fleira í þeim dúr.

Verkefninu fylgt eftir

1. Gott væri ef bekkurinn skrásetti útfærslu verkefnisins, mögulega með gerð bókar, ljósmynda eða myndbands. Bekkurinn gæti einnig kynnt verkefnið fyrir samfélaginu með því að halda kynningar fyrir aðra bekki skólans, skrifað greinar í dagblöðin o.s.frv. 2. Nemendur gætu boðið fólki úr samfélaginu sem þekkir vel til ágreiningsefna og sáttagerðar að koma og halda fyrirlestur fyrir bekkinn.

Tengsl við námskrá

Verkefnið byggir m.a. á færni í lestri, greiningu, að sjá fyrir afleiðingar, ákvarðanatöku og að undirbúa aðgerðir. Það mætti heimfæra upp á samfélagsfræði eða landafræði.

Nálægur ágreiningur

Vinnublað til að nota með verkefninu.
;
Kafli 6 / Verkefni 5
Ágreiningur og lausnir
PrentaPRENTA